Leiðbeinendur

„Tantrísku jóga- og hugleiðsluaðferðirnar hafa tvískipt áhrif. Þær hjálpa okkur við að fara í uppgötvunarferð um okkur sjálf, að öðlast innri kyrrð, og að vera athafnamikil og skapandi út á við, í samveru annarra.” (Swami Janakananda)

Swami Janakananda

Swami Janakananda er pranayama- og hugleiðslumeistari. Hann er líflegur fyrirlesari og eftirsóttur hugleiðslukennari. Hann fæddist í Danmörku árið 1939. Á barnsaldri lærði hann nokkrar jógaæfingar og um tvítugt byrjaði hann fyrir alvöru að kanna áhrifin af jóganu á sjálfum sér.

Á þeim árum sem hann vann við látbragðsleik og leikstjórn í Kaupmannahöfn stundaði hann jóga á hverjum degi og varð smám saman meistari í öndunaræfingunum í jóga (pranayama).

Árið 1968 hitti hann Swami Satyananda í Kaupmannahöfn og fylgdi honum til Indlands. Eftir nokkra mánaða dvöl hjá kennara sínum ákvað hann að vera þar áfram meðal annars til að geta kafað dýpra í tantrísku hugleiðsluaðferðirnar.

Þegar Swami Janakananda kom heim til Danmerkur, sumarið 1970, stofnaði hann Skandinavíska yoga- og hugleiðsluskólann. Fyrsti skólinn í Kaupmannahöfn stækkaði óðum og fleiri deildir litu dagsins ljós. Hann hefur, ásamt kennurunum sem hann hefur þjálfað, haft mikil áhrif á útbreiðslu jóga og hugleiðslu í Norður-Evrópu og víðar. Styrk sinn hafa þau sótt í Kriya Yoga hugleiðsluna og Karma Yoga og það að halda sig, á skapandi máta, við hina einstöku tantrísku hefð.

Swami Janakananda býr í Haa Retreat Center í Suður-Svíþjóð þar sem hann hefur átt samstarf við ýmsa vísindamenn sem rannsaka áhrif af jóga og hugleiðslu ásamt því að kenna hugleiðslu og þjálfa jógakennara. Í Haa kennir hann meðal annars Kriya Yoga á hverju ári bæði á eins mánaða og þriggja mánaða námskeiðunum.

Hann er mörgum innblástur með því að kenna á skýran hátt hvernig djúpristandi jógaaðferðir geta verið verkfæri okkar í hinu daglegu lífi. Það sem gerir kennslu hans svo sérstaka er að hann notar augnablikið hér og nú og tekur þér eins og þú ert. Þú þarft ekki að vera öðruvísi en þú ert, til að geta stundað jóga og hugleiðslu.

Bók hans Yoga, Tantra and Meditation in Daily Life hefur verið gefin út á níu tungumálum og margir njóta einnig djúpslökunar hans Experience Yoga Nidra. Sjá einnig greinar hans í Lestrarsalnum.

Swami Janakananda hefur verið með prógröm, námskeið og fyrirlestra m.a. í Suður-Ameríku, Englandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Bandaríkjunum, Singapore, Indlandi og á Íslandi.

 

Swami Ma Sita Savitri

Swami Ma Sita fæddist í Reykjavík árið 1958. Áhugi hennar á jóga og hugleiðslu vaknaði snemma. Sem barn og unglingur upplifði hún oft hvernig náin tengsl við náttúruna opnuðu dyrnar að hugleiðsluástandinu og vitundarvíkkun.

 

heitur mosinn

og ég endilöng,

bráðnum saman...

fuglinn og ég, á tindinum,

upplifum sannleikann...

saman

 

Swami Ma Sita lærði jóga á þeim árum er hún stundaði nám við Háskóla Íslands.

„Ég fann engan sem gat kennt mér góða hugleiðsluaðferð á Íslandi. Þegar ég flutti til Kaupmannahafnar árið 1982 fór ég á fyrsta "hugleiðslu"-námskeiðið sem ég rakst á. Þar hoppuðu þau um allsnakin og stundu hátt, það hafði sín áhrif en hugleiðsla var það ekki svo ég mætti bara einu sinni. Ég hafði gert mér allt aðrar vonir.

Síðan kynntist ég Skandinavíska yoga- og hugleiðsluskólanum. Aðferðirnar voru áhrifamiklar og kennsluhátturinn og grundvallarviðhorf kennaranna féll mér vel í geð"

 

Hún hélt sitt fyrsta námskeið á Íslandi árið 1985.

„Ég stóð á haus á Lækjartorgi til að auglýsa námskeiðin og fékk skemmtilegar athugasemdir frá vegfarendum. Á þeim tíma var kennd jógaleikfimi á Íslandi en jógakerfið í heild sinni var minna þekkt."

 

Hendur mætast

Hmmm... Getur maður hugleitt á einum fæti?

... á leið inn í lótusstellinguna í höfuðstöðu

 

Swami Ma Sita hefur í meira en 30 ár kennt víðsvegar um heiminn með kennara sínum Swami Janakananda. Nú kennir hún mest við Haa Retreat Center í Smálöndunum meðal annars á hinu alþjóðlega 3-mánaða sadhana námskeiði og heldur hún einnig utan um jógakennaranám skólans.

„Jóga er hagnýtt og vísindalegt kerfi sem gerir mér kleift að vera meira ég sjálf, verða meðvituð um alla mig, mitt innsta eðli og tengsl mín við umheiminn. Að uppgötva þá orku sem í mér býr og smám saman ná tökum á henni. Yoga þýðir heild. Að vera heil og í innra jafnvægi eykur sjálfstæðið og sköpunargleðina. Aðferðirnar eru ekkert í sjálfu sér. Það eru áhrifin af þeim sem gefa kennslunni næringu og sem hvetja mig til að halda áfram að hugleiða og iðka jóga reglulega." (Swami Ma Sita)