Aðferðir sem við höfum kennt á Íslandi

Jógastöður (Asana)

Við kennum fyrst léttar æfingar sem verka á vöðva, liði og blóðrás og sem koma á líkamlegu jafnvægi og vellíðan. Smám saman förum við í klassísku jógastellingarnar. Líkaminn verður mýkri og sterkari og hugurinn opnari og móttækilegri fyrir hugleiðsluástandinu.

Meira um jóga- og hugleiðslukerfið og um jógastöður

 

Öndunaræfingar (Pranayama) - Múdrur og lásar

Þessar æfingar fjarlægja tilfinningastreitu á mildan en áhrifaríkan hátt og og efla tengslin milli heilahvelanna. Hugurinn skýrist. Öndunin er í beinu sambandi við taugakerfið og speglar líkams- og hugarástand okkar.

Pranayama og orkulásar losa um stíflur í orkuflæðinu og framkalla heilnæmt orkusvið í líkamanum og umhverfis hann.

Meira um öndunaræfingar og múdrur og lása

Einbeitingaræfing (Tratak)

Tratak á kertaljós er ein af mörgum æfingum í jóga sem styrkir einbeitinguna. Hún er einnig góð fyrir augun og þjálfar þann hæfileika að sjá fyrir sér hluti og uppgötva það sem birtist af sjálfu sér á bak við lokuð augu.

Meira um Tratak

 

 „Okkur var leiðbeint hægt og rólega inn í jógaheiminn; við lærðum líkams- og öndunaræfingar, slökun og hugleiðslu. Þegar ég fór í háttinn fyrsta kvöldið færðist kyrrð yfir mig og ég svaf vært alla nóttina - það var kærkomin "nýjung" en ég hafði lengi þjáðst af svefnleysi. Jóganámskeiðið hefur gert það að verkum að ég gef mér tíma til að æfa jóga og hugleiðslu heima á hverjum morgni. Mér líður betur, ég hef meira innra jafnvægi og er einbeittari. Líkamsæfingarnar veita mér aukna líkamsvitund. Ég öðlast bæði styrk og mýkt. Lungnaþolið hefur aukist eftir að ég byrjaði á öndunaræfingum og öndun mín er eðlilegri. Hugleiðsluæfingarnar eru undursamlegar, nauðsynlegar fyrir okkur sem lifum í hraða, streitu og kröfum nútímans."

(Nemandi, eftir helgarnámskeið í jóga og hugleiðslu).

 

Gefðu þér tíma - fyrir slökun og hugleiðslu - til að bara vera

Við reglulega ástundun hættir þú smám saman að vera þræll líkama þíns og huga. Þú uppgötvar að líkami og hugur eru verkfæri þín og þú öðlast æ meiri innri ró, einnig í annríki dagsins. Þetta gerir það að verkum að þú getur gert meira fyrir aðra.

En hvað er handan hugans?

Hver er ég eiginlega?

Í djúpslökuninni og í hugleiðslunni hefurðu tækifæri á að uppgötva það og upplifa.

Uppspretta orkunnar

er einföld og áhrifarík hugleiðsluaðferð úr hinni tantrísku Kriya Yoga hefð. Með hugleiðslunni styrkir þú orkusvið þitt og þú verður næmari, upplifir meira og skýrara það sem gerist innra með þér og umhverfis þig.

Í hugleiðslunni er notuð sérstök öndunaraðferð, sálaröndun (Ujjayi), með tilheyrandi öndunarmöntru og sambandi við tengisvæði orkustöðvanna.

Spennuástand hverfur og orkuflæðið eykst. Smám saman kyrrist hugurinn...

Innri kyrrð (Antar Mauna)

er tantrísk athyglishugleiðsla. Hvað sem þú gerir annars í lífi þínu þá myndar þessi hugleiðsla traustan grundvöll.

Er stundum eitthvað sem truflar þig?

Utanaðkomandi áhrif?

Hugsanir eða áhyggjur?

Ekkert þarf að vera öðruvísi áður en þú byrjar hugleiðsluna.

Í fyrsta stiginu í Innri kyrrð, upplifirðu umhverfi þitt sem eina heild og sættir þig við aðstæðurnar eins og þær eru.

Síðan upplifir þú huga þinn eins og hann er þegar þú reynir ekki að stjórna honum. Þú slakar á öllum kröfum.

Innihald hugans fær að streyma hömlulaust.

Þannig losast um hugsanir og ástönd og hugurinn róast smám saman.

Kjarninn í hugleiðslunni er umbreytandi reynsla af innri kyrrð, þaðan sem þú upplifir allt.

Meira um hugleiðslu

Yoga Nidra

er einstök djúpslökun byggð á tantrísku slökunarhefðinni. Hún gefur heild þinni, líkama og huga endurnærandi hvíld. Þegar við getum ekki slakað á eftir streitu eða stress svíkja taugarnar okkur og við verðum móttækilegri fyrir ýmsum líkamlegum kvillum. Það er hægt að rjúfa vítahringinn með því að stunda Yoga Nidra reglulega. Vísindamenn nútímans hafa sannað það sem jógarnir hafa vitað í þúsundir ára þ.e. meðal annars að djúpslökun styrkir ónæmiskerfið.

Maður liggur á bakinu, hreyfingarlaus, með lokuð augu, og fylgir leiðbeiningunum. Seinna meir er hægt að læra Yoga Nidra utan að og leiðbeina sjálfum sér í hljóði. Þessi djúpslökun gefur huga og líkama þá hvíld sem svefninn veitir sjaldan.

Margt fróðlegt um Yoga Nidra, um uppruna þess, tantra og nyasa -  á ensku

Meira um hina tantrísku hefð

Kennt í Haa Retreat Center:

Awareness and experience

Body, mind, energy and consciousness

Ítarlegri umfjöllun:

On the path to a greater awareness

Kriya Yoga to the depth of your nature

The greenhouse, the process and the ritual 

Harmony between the experiencer and the experienced

Hreinsunaraðferðir úr Hatha Yoga

Þarmaskolun (shankhaprakshalana), magaskolun (kunjal) og nefskolun (neti) eru aðferðir sem gefa þér besta innvortis bað sem völ er á.

Hatha Yoga byggir á þekkingunni um það hvernig hægt er að samræma starfsemi líffæra og innkirtla og koma jafnvægi á líkamsstarfsemina og á þann hátt skapa góðan grundvöll fyrir hugarástandið.

Það eru ekki bara indverskir jógar og jógínur sem þekkja hollustu þess að skola líkamann að innan með saltvatni. Hér í Norðurálfu er það gamalt og gott húsráð að skola nef, háls og maga með sjóvatni.

Margir læknar mæla með nefskolun.

Meira um nefskolun:

Stutt kynning

"Hvernig skolar maður nefið?" - Ítarlegar leiðbeiningar

Grein um nefskolun - á ensku

Þarmaskolunaraðferðin

Með því að drekka heitt, léttsaltað vatn og gera fjórar auðveldar líkamsæfingar er meltingarvegurinn skolaður frá munni til endaþarms. Á mildan hátt fá maginn og þarmarnir fullkomna hreinsun og hvíld. Í tíu daga á eftir er mataræðið einfalt og létt grænmetisfæði. Það eru ekki bara þarmarnir og líffærin sem hreinsast og endurnærast heldur allur líkaminn og starfsemi hans. Maður uppgötvar að líkami og hugur tengjast innbyrðis og eru hluti af einni heild. Úrgangs- og eiturefni og spennuástand hverfa. Öll skynfærin skerpast og maður verður léttari á sér. Almenn vellíðan segir til sín.

Með Hatha Yoga hreinsunaraðferðum er hægt að koma í veg fyrir myndun ýmissa kvilla og ef skaðinn er skeður geta þær bætt heilsufarið. Aðferðirnar eru meðal annars notaðar við streitu, ofnæmi, astma, höfuðverk, sykursýki og maga-, þarma- og meltingartruflunum.

Það er gott að gera þarmaskolun einu sinni eða tvisvar á ári og þá undir handleiðslu jógakennara sem sjálf/ur hefur reynslu af aðferðinni og gerþekkir hana. Best er að gera það í hópi. Þá myndast góður andi og felur í sér stuðning að auki.

Daginn áður

Þú borðar hádegismat ekki seinna en kl. 2, en um kvöldmatarleytið færðu þér bara einn eða tvo ávexti og vatn eða jurtate. Ef þú drekkur kaffi eða svart te þá er best að hætta því 5-6 dögum fyrir skolunina. Ef þú drekkur mikið af kaffi eða svörtu tei borgar sig að trappa sig hægt og rólega niður í neyslunni. Mundu að kaupa inn grænmeti fyrir hreinsunarhelgina.

Þarmaskolunardagurinn

Þú mætir að morgni dags á fastandi maga. Kennarinn útskýrir aðferðina og svo byrjum við. Þú drekkur fullt glas af heitu léttsöltuðu vatni. Síðan gerirðu fimm líkamsæfingar. Saltið og æfingarnar gera það að verkum að vatnið rennur fljótt í gegnum meltingarveginn. Þú færð annað vatnsglas og gerir æfingarnar, þriðja glasið og svo æfingarnar og þannig koll af kolli. Reyndu að bíða þangað til eftir sjötta vatnsglasið og sjöttu æfingarnar með að fara á klósettið þó að þörfin sé komin fyrr. Eftir það ferðu á klósettið eftir hvert glas og æfingar. Þannig heldurðu áfram þangað til að það sem kemur út um endaþarminn er jafn tært og vatnið sem þú drekkur. Þú drekkur minnst 16 glös (4 lítra) en sumir þurfa aðeins meir. Vatnið rennur beint í gegnum þarmana. Það fer ekki í gegnum nýrun vegna þess að saltupplausnin er sú sama og er í líkamsvökvanum.

Þegar þarmarnir eru orðnir hreinir skolarðu magann með volgu saltvatni. Þú drekkur u.þ.b. einn og hálfan líter í einum teig og kastar því svo upp strax á eftir. Eftir magaskolunina gerirðu æfingarnar fimm í síðasta skipti og skolar síðan nefið með sérstakri nefskolunarkönnu. Síðan leggurðu þig og hvílir í 45 mínútur. Þar á eftir færðu þarmaskolunarmáltíðina; Avori hrísgrjónarétt með hreinsuðu smjöri (Ghee). Smjörið smyr og verndar þarmana og grjónin setja starfsemi þeirra aftur í gang.

Taktu því með ró það sem eftir lifir dags.

Mataræðið á eftir

Skráðu þig bara á þarmaskolunarnámskeið ef þú hefur í hyggju að fylgja mataræðinu. Á námskeiðinu færðu leiðbeiningar og lista yfir það sem þú mátt borða og hvað þér ber að varast í tíu daga á eftir hreinsunina. Fæðið er mestmegnis soðið/gufusoðið/ofnbakað grænmeti, soðnar kornvörur, baunir og linsubaunir. Lyf eru ekki tekin nema þau séu lífsnauðsynleg. Talaðu við leiðbeinandann á námskeiðinu ef þú ert með sjúkdóm og þarft að taka lífsnauðsynleg lyf.

Eftir tíu daga er fæðið frjálst en ef þú vilt efla áhrifin af skoluninni og fá meira út úr henni borðaðu þá hvorki kjöt, fisk né egg í 30 daga þar á eftir.

Meira um jóga-þarmaskolun - á ensku